Innlent

Voru við þakviðgerðir í Bláfjöllum þegar skjálftinn reið yfir

„Skjálftinn var afar snarpur," segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna í Bláfjöllum. „Krafturinn í honum óx hratt og síðan var hann bara búinn."

Magnús var í Bláfjöllum þegar skjálftinn reið yfir á tólfta tímanum í dag. Hann var þar ásamt öðru starfsfólki Bláfjalla sem nú vinna að því að gera svæðið klárt fyrir veturinn. Hann hefur ekki orðið var við skemmdir á svæðinu.

„Okkur var öllum mjög brugðið. Það voru nokkrir strákar að gera við þak á skemmu þegar hann reið yfir. Þeim var eðlilega brugðið við þetta." segir Magnús.

Hann segist ekki hafa fundið fyrir eftirskjálftum. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu hafa nokkrir slíkir riðið yfir svæðið, flestir undir tvö stig að stærð.

„Nú er bara allt komið í samt lag. Strákarnir eru meir að segja komnir aftur upp á þak," segir Magnús að lokum.


Tengdar fréttir

Má búast við nokkrum eftirskjálftum

Það má búast við skjálftum upp á tvö til þrjú stig í framhaldinu, segir Einar Kjartansson jarðskjálftafræðingur á Veðurstofunni í samtali við fréttastofu. Hann segir að nokkrir litlir skjálftar hafi þegar mælst og skjálftinn fannst víða. Skjálftinn fannst greinilega í Reykjavík og samkvæmt upplýsingum fréttastofu fannst hann líka greinilega á Selfossi.

Jarðskjálftinn var 4,6 stig

Jarðskjálfti varð á höfuðborgarsvæðinu fyrir stundu. Skjálftinn fannst mjög vel í Reykjavík og nágrenni. Hann varð rétt fyrir hádegi á sex kílómetra dýpi við Bláfjöll. Samkvæmt upplýsingum frá jarðskjálftafræðingi á Veðurstofunni sýna fyrstu mælingar að hann hafi mælst 4,6 stig.

Fólk hljóp á dyr í Litlu Kaffistofunni

Skálftinn sem reið yfir á tólfta tímanum í dag fannst greinilega við Litlu Kaffistofuna á Suðurlandsvegi. Stefán Þormar Guðmundsson, staðahaldari, segir að gestum og starfsfólki hafi verið brugðið og að nokkrir hafi hlaupið á dyr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×