Innlent

Héldu að húsið væri að hrynja

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Smiðir sem voru á þaki skemmu í Bláfjöllum þegar skjálftinn reið fyrir héldu að húsið væri að hrynja undan þeim. Starfsmönnum á svæðinu var flestum brugðið. Þrír voru smiðir voru við vinnu í skemmu í Bláfjöllum þegar að skjálftinn reið fyrir.

„Við svona héldum fyrst að húsið væri bara að hrynja og vorum ekkert vissir um hvað væri í gangi. Svo gerðum við okkur grein fyrir þessu mjög fljótlega," sagði Kristinn Þór Arnarsson.

Ykkur hefur þá verið brugðið er það ekki? Já svona töluvert.

Samstarfsfélagi hans, Brynjar Árni Stefánsson, var inni í skemmunni á meðan á þessu stóð.

„Við héldum einhvern veginn fyrst að þakið væri að gefa sig eða einhver af strákunum væri að hrynja niður," lýsir Brynjar Árni.

Engar skemmdir urðu á skíðasvæðinu og engir hlutir brotnuðu þó þeir færðust aðeins til. „Þeir hristust vel á meðan á þessu stóð en ekkert sem datt úr hillum eða neitt svoleiðis. Þetta var bara þétt og kröftugt en varði mjög stutt," sagði Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.

Funduð þið einhverja eftirskjálfta? „Það var örlítið þarna aðeins á eftir ekki eins og svona kom fyrst," sagði Kristinn Þór.

Á Litlu kaffistofunni skammt frá fundu viðskiptavinir vel fyrir skjálftanum og nokkrir hlupu út. „Það voru allavega tveir sem hlupu út um leið og þetta gerðist," sagði Linda Stefánsdóttir, starfsmaður Litlu kaffistofunnar, og ekki að undra, fólk fann vel fyrir skjálftanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×