Innlent

Vel yfir hundrað tonn komu á sjóstöng

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Mynd/Stefán Karlsson
Í sumar hafa 130 tonn af fiski veiðst á sjóstangaveiðimótum samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Tölurnar eru ekki endanlegar, enn á eftir að halda nokkur mót og því munu tölurnar enn hækka.

Víðsvegar um landið eru haldin sjóstangveiðimót yfir sumartímann. Afli sem veiðist á þess konar mótum telst ekki til aflamarks, þ.e. ekki þarf kvóta til veiðanna. Þetta kemur fram í 2. málsgrein 6. greinar laga um stjórn fiskveiða.

Aflinn sem hefur veiðst í sumar á umræddum mótum nemur 130 tonnum. Þar af er þorskurinn langfyrirferðarmestur, eða rúm 120 tonn. Ufsi og keila fylgja á eftir. Makríllinn taldi hins vegar ekki nema rúm 200 kíló.

Tugir milljóna

Samkvæmt upplýsingum frá Reiknistofu fiskmarkaða var meðalverð á öllum handfæraafla í sumar um 288 kr/kg. Gróft áætlað má því ímynda sér að ef aflinn af sjóstangveiðimótum sumarsins hefði ratað á fiskmarkaði hefði hann farið á rúmar 37 milljónir króna. Þar sem samsetning afla er afar misjöfn skal tekið fram að þetta er afar ónákvæm ágiskun.

Veiðar til eigin neyslu

Ofangreindar tölur taka aðeins mið af sjóstangaveiðimótum. Þar kemur ekki fram hve mikið hefur veiðst í frístundaveiðum fólks til eigin neyslu, en samkvæmt 6. grein laga um stjórn fiskveiða má fólk veiða lítið magn til eigin neyslu án þess að eiga kvóta. Gera má ráð fyrir að nokkuð magn hafi veiðst á þann hátt í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×