Innlent

Refsiheimildir laga um gjaldeyrisviðskipti ófullnægjandi

Karen Kjartansdóttir skrifar
Refsiheimildir í lögum um gjaldeyrisviðskipti eru ekki fullnægjandi og því er ekki hægt að ákæra einstaklinga þrátt fyrir að Seðlabankinn gruni þá um brot. Þetta kemur fram í áliti Ríkissaksóknara sem fréttastofa hefur undir höndum. Fundur sem Seðlabankinn vildi með Ríkissaksóknara um málið fyrir tveimur mánuðum hefur enn ekki verið haldinn.

Lögum um gjaldeyrisviðskipti er ætlað að koma í veg fyrir að hægt sé að svindla á gjaldeyrishöftum.

Enginn hefur þó enn verið sóttur til saka vegna brota á gjaldeyrislögum enda telur Ríkissaksóknari refsiheimildina í þeim svo óskýra að ekki sé hægt að refsa fyrir brot á þeim.

Sérstakur saksóknari ákvað í febrúar að hætta rannsókn á nokkrum málum sem vörðuðu brot á gjaldeyrisviðskiptum. Seðlabankinn krafðist þess að rannsókn yrði hafin að nýju. Ríkissaksóknari tók afstöðu til þeirrar kröfu Seðlabankans og vísaði málinu frá.

Seðlabankinn var líka ósammála þeirri afstöðu og bað um fund með Ríkissaksóknara til að skýra málið og sýna gögn sem varða túlkun á lögum og reglum um gjaldeyrisviðskipti. Sá fundur hefur enn ekki farið fram þótt tveir mánuðir hafi liðið frá því beðið var um hann.

Í afstöðu Ríkissaksóknara í einu málinu sem fréttastofa hefur undir höndum kemur meðal annars fram að: Skilin milli leyfilegra og óleyfilegra athafna séu hér ekki nægilega skýr.

Þá er vísað til ákvæði 1. málsgreinar 69. greinar Stjórnarskrárinnar en í henni segir meðal annars: „Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað."

Segir Ríkissaksóknari að þetta ákvæði kæmi að litlu gagni ef: "ekki fælist í því skilyrði um að löggjafinn skilgreini þá háttsemi með fullnægjandi hætti í lögum."

Því var niðurstaða embættisins að staðfest ákvörðun Sérstaks saksóknara um að hætta rannsókn málsins.

Enn eru 28 mál til rannsóknar hjá Seðlabankanum sem varða meint brot á lögum um gjaldeyrismál. Af niðurstöðu ríkissaksóknara að dæma fyrrnefndu máli, er alls óvíst hvort hægt verður að sækja menn til saka fyrir meint brot á þessum lögum. Menn geta því hafa gerst brotlegir við lögin en í lögunum er ekki nægilega heimild til að hægt sé að refsa þeim fyrir brotið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×