Innlent

Íslenskir ólympíufarar láta umferðartafir ekki spilla stemningunni

BBI skrifar
Íslensku ólympíufararnir eru lagðir af stað út en Andri Stefánsson, fararstjóri íslensku keppendanna, kom í Ólympíuþorpið á föstudaginn var. Hann segir að stemningin í hópnum sé góð.

„Þetta er svona allt að fara á fullt," segir Andri en nú eru keppendurnir að koma út í hollum. Andri er ekki frá því að Íslendingar geti sigrað í einhverjum greinum. „Við náttúrlega erum ekkert búin að vinna mikið af verðlaunum gegnum tíðina. En þau hafa nú samt komið og við eigum fólk sem er alveg gjaldgengt á heimsmælikvarða," segir hann.

Íslenski hópurinn dvelur í Ólympíuþorpinu. Keppendurnir þurfa því ekki að ferðast mikið út fyrir það afmarkaða svæði. Fregnir hafa borist af miklum samgöngutöfum í London og menn hafa stöðugt meiri áhyggjur af samgöngukerfi borgarinnar. Miklar tafir urðu í neðanjarðarlestakerfinu í morgun auk þess sem ökumenn máttu bíða í tvo til þrjá tíma á helstu umferðaræðum í morgun.

Íslenski hópurinn hefur lítið fundið fyrir þeim örðugleikum. „Maður er kannski aðeins lengur á leiðinni frá flugvellinum og hingað í þorpið," segir Andri. „En allt okkar umhverfi er bara hérna í þorpinu. Svo við höfum engar áhyggjur af umferðartöfum. Samgöngur verða erfiðar alla vikuna, en við látum það ekkert hafa áhrif á stemninguna."

Leikarnir hefjast á föstudaginn og eru íslensku ólympíufararnir 27 talsins, þar af telur íslenska handboltalandsliðið 14 manns. Þeir munu klæðast fatnaði og skóm frá Nike.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×