Innlent

Tónleikar til styrktar Nikólu í Fríkirkjunni í kvöld

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Fjölmargir landsþekktir tónlistarmenn koma fram á tónleikum í Fríkirkjunni í kvöld til styrktar hinni fjórtán ára gömlu Nikólu, sem hefur barist við krabbamein í um ár. Við hittum hetjuna ungu nú rétt fyrir fréttir þar sem hún var að hafa sig til fyrir tónleikana.

Nikóla fór um síðustu jól til Svíþjóðar þar sem hún gekkst undir mergskipti en aðgerðin gekk hins vegar ekki sem skyldi og svarar hún ekki lyfjameðferð.

„Hún er rúmliggjandi og var ekki viss hvort hún kæmist á tónleikana en ég hringdi í hana áðan og hún kemst. Hún fær heimaþjónustu og fer á spítalann daglega," segir Arna Björgvinsdóttir, vinkona Nikólu og skipuleggjandi tónleikanna.

Arna sem er skipuleggjandi tónleikanna kynntist Nikólu í nóvember síðastliðnum og urðu þær góðar vinkonur.

Hvernig brást hún við þegar hún heyrði af þessum tónleikum? „Hún var rosalega ánægð, það er gaman fyrir hana að hafa eitthvað til að hlakka til. Hún er búin að hlakka til síðustu þrjár vikur sem er rosalega skemmtilegt," segir hún.

Hún segir veikindin hafa haft töluverð áhrif á fjárhagsstöðu fjölskyldunnar.

„Foreldrar hennar geta hvorugir unnið og þau eru með tvö lítil börn. Ég held að þeim veiti ekki af smá styrk," segir hún.

Nikóla og systkin hennar tvö tóku í dag forskot á sæluna og hlýddu á lag sem Friðrik Dór samdi um hetjuna ungu, en tónlistarmaðurinn verður á meðal þeirra sem spila í kvöld.

Tónleikarnir hefjast klukkan átta í Fríkirkjunni og er aðgangseyrir 1500 krónur. Fyrir þá sem ekki komast eða vilja leggja málefninu lið er bent á reikningsnúmerið hér neðst í fréttinni. Þar sem uppáhaldslitur Nikolu er fjólublár verður fjólublátt þema í kvöld og hvetur Arna gesti til að mæta í litnum henni til stuðnings.

„Það eru ekki allir sem eiga eitthvað fjólublátt en það er frábært ef fólk á það, hvort sem það er armband eða kjóll eða hvað sem er."

Rn.1129-05-2913

kt: 021076-4309




Fleiri fréttir

Sjá meira


×