Innlent

Ætla að endurtaka frægasta fangelsisflótta sögunnar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þrír íslenskir sundkappar ætla að endurtaka einn frægasta fangelsisflótta sögunnar í næstu viku og synda yfir San Francisco-flóa frá Alcatraz fangelsinu. Sundkapparnir búast við köldu vatni, hákörlum og sterkum hafstraumum.

Það eru félagarnir Benedikt Hjartarson, Árni Þór Árnason og Jón Sigurðarson sem ætla að endurtaka flóttann en þeir eru allir reyndir sundsmenn. Benedikt er eini Íslendingurinn sem hefur synt Ermarsundið. Árni reyndi það í fyrra en varð að hætta eftir tæplega tíu klukkustunda sund. En nú ætla félagarnir að reyna við San Francisco flóa.

Hvernig datt ykkur í hug að synda þetta?

„Það var eiginlega félagi okkar Jón Sigurðsson, sem varð sextugur á árinu og langaði að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt. Hann spurði hvort við værum ekki til í að taka þátt í einhverri vitleysu með honum og við erum alltaf til í eitthvað svona og það var alveg kjörið að velja þetta sund," segir Benedikt Hjartarson, sundkappi.

Alcatraz er eitt þekktasta fangelsi sögunnar en þar gistu alræmdustu glæpamenn Bandaríkjanna. Margir reyndu að flýja fangelsið en frægasta tilraunin var gerð árið 1962 - eða fyrir fimmtíu árum - þegar Anglin bræður og Frank Morris syntu yfir flóann - en ekki er vitað hvort að þeir drukknuðu eða náðu að komast að landi. Um þennan flótta var gerð kvikmynd sem skartaði meðal annars leikaranum Clint Eastwood.

Sundkapparnir þurfa að synda fjóra kílómetra frá Alcatraz yfir San Francisco flóa í frekar köldum sjó. Þeir búast við sterkum straumum og jafnvel hákörlum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×