Innlent

Tveggja ára á leið í sína fjórðu hjartaaðgerð

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Þrátt fyrir að vera einungis tveggja og hálfs árs hefur Matthildur Haraldsdóttir gengist undir þrjár stórar hjartaaðgerðir og er útlit fyrir að sú fjórða verði gerð á næstu dögum. Vinir hafa tekið höndum saman og stefna á að halda styrktartónleika í tveimur löndum.

Matthildur fæddist í Salzburg í Austurríki í desember 2009. Fljótlega kom í ljós að hún væri með afar flókinn og sjaldgæfan hjartagalla og gáfu læknar litla sem enga von um að hún myndi komast í gegnum fyrstu dagana. Sú stutta barðist hetjulega fyrir lífi sínu og hafði betur en ljóst var frá fyrsta degi að hún þyrfti að gangast undir þrjár stórar hjartaaðgerðir.

„Hún fór í þriðju stóru hjartaaðgerðina 11.júlí síðastliðinn. Auðvitað vonuðum við öll að hún myndi ganga snuðrulaust fyrir sig en það var ekki raunin," segir Guðbjörg Sandholt, fjölskylduvinur.

Endurtaka átti stóru aðgerðina í gær en henni var frestað um nokkra daga þar sem Matthildur reyndist ónæm fyrir ákveðnum lyfjum.

MatthildurMynd/úr einkasafni
„Í fyrradag þá vorum við ansi hrædd um Matthildi en hún kom samt öllum á óvart í gær þegar hún borðaði með foreldrum sínum. Hún semsagt vaknaði og var tekin úr öndunarvél sem hún er búin að vera í núna í nokkra daga, það var mikil áhætta, en hún andaði sjálf með smá súrefni í gegnum nefið."

Foreldrar litlu baráttuhetjunnar eru tónlistarmennirnir Haraldur Ægir Guðmundsson og Harpa Þorvaldsdóttir en auk Matthildar eiga þau dótturina Halldóru sem er níu ára gömul en fjölskyldan býr í Salzburg.

„Hún hefur sýnt fram á að hún er mikil baráttukonu, alveg frá fyrstu stundu."

Vinir fjölskyldunnar hafa tekið sig saman og ætla að halda nokkra styrktartónleika bæði hér heima sem og í Austurríki og verða þeir auglýstir síðar.

„Ef fólk vildi styðja við bakið á fjölskyldunni í þessum aðstæðum. Það er náttúrulega nóg að hafa áhyggjur af barninu, að maður þurfi ekki líka að svitna yfir fjárhagsstöðunni og hafa áhyggjur af því. Það tekur ákveðinn þunga í burtu og það er þess vegna sem við erum að reyna að vekja athygli á stöðunni," segir Guðbjörg að lokum.

Reikninsnúmer til styrktar Matthildi hér að neðan:

Rn. 0159-05-403600

Kt.160580-5429




Fleiri fréttir

Sjá meira


×