Innlent

Ný rannsókn: Líkamleg heilsa íslenskra geðklofa er slæm

Líkamleg heilsa geðklofasjúklinga á Íslandi er slæm og heilsubrestir þeirra oft vangreindir og vanmeðhöndlaðir. Þetta sýnir ný íslensk rannsókn. ,,Áhættuhópur sem virkilega þarf að hlúa að," segir geðlæknir.

Geðklofasjúklingar á Íslandi eru um 1600 og tóku rúmlega hundrað þeirra þátt í rannsókninni sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Kristófer Þorleifsson, sem henni stýrði, segir niðurstöðurnar sláandi en 57% greindust með svokallaða efnaskiptavillu samanborið við 14% prósent hjá almenningi.

„Efnaskiptavilla er stór áhættuþáttur fyrir hjarta- og kransæðasjúkdóma. Þeirrra lífsstíll er með þeim hætti að þeir fá efnaskiptavillu, þeir verða of feitir, þeir reykja of mikið og þar með auka þeir hættuna á hjarta og æðasjúkdómum," segir hann.

Rannsóknin leiddi í ljós að yfir 15% sjúklinga er með sykursýki, sem er þrisvar sinnum meira en hjá almenningi, en einungis þriðjungur naut meðferðar. Þá voru 23% með of háan blóðþrýsting og aðeins fimmtungur fékk viðeigandi meðferð. Kristófer segir nauðsynlegt auka eftirlit með líkamlegu heilsufari sjúklinganna sem og fræðslu til þeirra.

„Það er þörf á átaki. Lífslíkur þeirra sem eru með geðklofasjúkdóm eru um 20% minni en annarra og þeir lifa 15 árum skemur. Reyndar er það almennt, þó svo að engir sjúkdómar séu til staðar þá eru þær (lífslíkurnar) minni en hjá almenningi, þeir deyja meira af slysförum og sjálfsvígum og svo er hærri dánartíðni af hjartasjúkdómum og krabbameini hjá þeim. Þannig að þetta er hópur sem þarf að hlúa að? Já virkilega, mikill áhættuhópur," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×