Innlent

Mun íhuga formannsframboð með opnum huga

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður, útilokar ekki framboð til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í byrjun næsta árs ef svo fer að Jóhanna Sigurðardóttir ákveður að hætta.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur enn ekkert gefið út um það opinberlega hvort hún muni áfram gefa kost á sér sem formaður Samfylkingarinnar eftir næsta landsfund flokksins sem verður í byrjun næsta árs. Þegar eru hins vegar hafnar umræður meðal almennra flokksmanna og í opinberri umræðu um hver muni hugsanlega taka við af henni ef hún ákveður að stíga til hliðar.

Fyrr í þessum mánuði gerði fréttastofa könnun meðal þingmanna og annars áhrifafólks innan Samfylkingarinnar þar sem fólk var beðið að nefna hvern það teldi líklegastan til að gefa kost á sér í embætti formanns. Nöfn þeirra Árna Páls Árnasonar, Guðbjarts Hannessonar og Katrínar Júlíusdóttur voru oftast nefnd.

En það eru fleiri sem koma til greina. Margir flokksmenn hafa hvatt Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þingmann að gefa kost á sér, ef svo fer að kosið verði um embætti formanns á landsfundinum.

„Fólk hefur rætt við mig um möguleika á því að ég fari í forystusveit Samfylkingarinnar. Ég hef svarað því til að ég muni íhuga það með opnum huga. En ég tel að Jóhanna Sigurðardóttir sem er formaður flokksins, nýtur mikilla vinsælda og hefur ekkert gefið það upp ennþá um það hvað hún hyggist gera. En komi til forystuskipta skiptir miklu máli að flokksfólk ákveði sín á milli hvers konar forysta sé farsælust fyrir flokkinn til lengri tíma litið," segir Sigríður.

Og ef þú færð áskoranir þess efnis að gefa kost á þér muntu íhuga það alvarlega?

„Já þá mun ég skoða það með opnum huga," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×