Innlent

Gert að afhenda nöfn allra kvenna sem fengu PIP brjóstapúða

VG skrifar

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, um að lögfræðingurin Saga Ýrr Jónsdóttir, héraðsdómslögmaður hjá Vox lögmannsstofu, skuli afhenda skattrannsóknarstjóra yfirlit yfir nöfn og kennitölur allra þeirra kvenna sem hafa leitað til hennar eftir lögfræðiaðstoð vegna brjóstastækkunar hjá lýtalækninum Jens Kjartanssyni. Allar konurnar fengu grædda í sig svokallaða PIP-brjóstapúða hjá Jens, sem síðar reyndust gallaðir.



Ástæðan er formleg rannsókn skattrannsóknarstjóra á eignarhaldsfélagi Jens varðandi bókhald og skattskil félagsins. Í dómsorði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að Saga hafi undir höndum upplýsinga um í kringum 100 viðskiptavini Jens sem fóru í aðgerð til hans, en sjálf hefur hún umboð frá 45 konum, sem hyggjast höfða skaðabótamál gegn Jens eftir að hann græddi í þær brjóstapúðana.



„Ég lít svo á að þagnarskylda lögmanna sé mjög rík og að þetta trúnaðarsamband sé mikilvægt. Það er ekki þægilegt að vita til þess að opinberar stofnanir eins og skattrannsóknarstjóri geti krafist gagna hjá okkur," sagði Saga þegar niðurstaðan úr héraðsdómi var kunn.



Eins og kunnugt er fengu yfir 400 konur grædda í sig PIP brjóstapúðana, en ríkisstjórnin ákvað að skattgreiðendur skyldu standa straum af kostnaði við að fjarlægja púðana, en sumar konurnar vildu meina að brjóstapúðarnir hefðu valdið þeim meiriháttar heilsutapi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×