Innlent

Sjálfstýrður bíll frá Google

Svona lítur bíllinn út. Glæsilegur!
Svona lítur bíllinn út. Glæsilegur!
„Það er töluvert síðan að þessi tækni kom til sögunnar. Menn hafa verið að gera þetta hver í sínu horni en nú eru menn farnir að keyra þetta meira saman," segir Ólafur Guðmundsson hjá FÍB, um nýja sjálfstýrða bílinn frá Google, í samtali við þáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Fyrirtækið hefur hannað bíl sem keyrir sjálfur, engin manneskja þarf að ýta á bensíngjöfina eða bremsa. Bíllinn skynjar það allt sjálfur. Ólafur segir að bíllinn sé keyrður áfram af mikilli tækni, svo sem radar og GPS-búnaði.

„Það er búið að keyra þennan bíl frá Google rúma 200 þúsund kílómetra og hann hefur einu sinni lent í umferðaróhappi, það var vegna þess að einhver keyrði aftan á hann - hann var í rétti. Það má segja sem svo að ef bíllinn fyrir aftan hann hefði verið með svipaðan búnað þá hefði þetta ekki gerst en það var mannskepnan sem var að keyra þann bíl og hún klikkaði. En við verðum samt alltaf á einhvern hátt háð manninum í þessu. Við þurfum alltaf að kunna að keyra og bregðast við, sem er svipað og í fluginu - menn eru með sjálfstýringu í flugi en þeir þurfa engu að síður að kunna að fljúga," segir Ólafur.

Myndu svona bílar virka á Íslandi? „Ef svona bílar ættu að virka á Íslandi, þá þarf að huga að því að allir innviðirnir séu í lagi. Ég tók til dæmis eftir því um daginn að allar hvítu línurnar eru horfnar allavega á milli Reykjavíkur og Akureyrar,"

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ólaf í meðfylgjandi hljóðbroti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×