Innlent

Vill Norðlingaölduveitu í nýtingarflokk

Frá stíflustæði við Norðlingaöldu 7 km neðan Þjórsárvera.
Frá stíflustæði við Norðlingaöldu 7 km neðan Þjórsárvera.
Landsvirkjun býðst til að hafa rennslisstýringu á Dynk og öðrum fossum í Efri-Þjórsá til að halda ásýnd þeirra og telur mikilvægt að Norðlingaölduveita verði tekin úr verndarflokki rammaáætlunar.

Margir setja fossinn Dynk á stall með Gullfossi og Dettifossi en hann er í Efri-Þjórsá og utan alfaraleiða. Neðar í ánni er Gljúfurleitarfoss, ekki síður magnaður í einu falli, en efstur er Kjálkaversfoss.

Með svokallaðri Kvíslaveitu fyrir þrjátíu árum er þegar búið að virkja um 40 prósent af rennsli þessara þriggja fossa en Landsvirkjun vill fá 30 prósent til viðbótar með stíflu við Norðlingaöldu, og dæla þaðan vatninu yfir til Þórisvatns, sem myndi auka raforkuframleiðslu fjögurra virkjana fyrir neðan; við Vatnsfell, Sigöldu, Hrauneyjar og Búðarháls.

Ríkisstjórnin vill hins vegar slá Norðlingaölduveitu af og hefur sett hana í verndarflokk rammaáætlunar með þeim rökum að hún raski lítt snortnu svæði í jaðri Þjórsárvera og hafi áhrif á fossana.

Landsvirkjun segir á móti í umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis mjög mikilvægt að Norðlingaölduveita fari í nýtingarflokk. Bent er á að stíflan verði sjö kílómetrum neðan friðlandsmarkanna og veitulónið verði í Þjórsárfarvegi á örfoka svæði og feli í sér nánast enga röskun á landi vestan ár.

Þá býðst Landsvirkjun til að útfæra hugmyndir um rennslisstýringu þannig að dregið yrði úr áhrifum veitunnar á fossana fyrir neðan.

Í greinargerð fyrir sex árum mat Landsvirkjun kostnaðarauka sinn ef fallið yrði frá Norðlingaölduveitu upp á sex til sex og hálfan milljarð króna, sem að núvirði eru um tólf til þrettán milljarðar króna, mest vegna þess að annars yrði að virkja dýrari kosti í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×