Innlent

Vítisenglar safna upplýsingum um lögreglumenn

Lögreglan hefur upplýsingar um að Vítisenglar fylgist með þeim.
Lögreglan hefur upplýsingar um að Vítisenglar fylgist með þeim.
Lögregluyfirvöld, bæði hér á Íslandi og erlendis, hafa orðið þess áskynja að meðlimir vélhjólasamtakanna Vítisengla safni upplýsingum um lögreglu og starfsmenn hennar. Þetta kemur fram í skýrslu sem lögreglan vann um starfsemi Vítisengla og Vísir hefur undir höndum.

Í skýrslunni kemur fram að í október á síðasta ári gerði lögreglan húsleit hjá bróður Einars Inga Marteinssonar, þáverandi forseta Vítisengla á Íslandi, vegna upplýsinga um að maðurinn væri að selja fíkniefni fyrir Vítisengla. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar var maðurinn meðlimur í stuðningshópi Vítisengla. Í tölvu mannsins fundust myndir af starfsstöð fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins og af bílastæðum við húsið.

Þá gerði lögreglan húsleit hjá öryggisstjóra Vítisengla á Íslandi í mars síðastliðnum. Þar fannst útprentaður listi með nöfnum lögreglumanna og í tölvu mannsins fannst myndskeið sem sýndi lögreglumenn hafa afskipti af meðlimum Vítisengla.

Lögreglan fékk upplýsingar um það í október í fyrra að Einar Ingi Marteinsson, þáverandi forseti Vítisengla, hafi fyrirskipað öllum meðlimum Vítisengla að fá nöfn og fleiri upplýsingar um alla lögreglumenn sem hefðu af þeim afskipti. Fyrrgreindum Einari Inga var vikið úr klúbbnum fyrr á árinu en hann er í gæsluvarðhaldi vegna ofbeldisbrots sem hann er grunaður um að hafa skipulagt.

Engar upplýsingar eru um það í skýrslunni hvers vegna Vítisenglar vilja að meðlimir samtakanna safni upplýsingum um lögreglumenn. En yfirstjórn lögreglunnar tekur allri ógn sem kann að steðja að lögreglumönnum mjög alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×