Innlent

Skylt að afhenda gögnin

Erla Hlynsdóttir skrifar
Jens Kjartansson lýtalæknir
Jens Kjartansson lýtalæknir

Lögmanni tuga kvenna sem ætla í mál við Jens Kjartansson lýtalækni, er skylt að afhenda skattrannsóknastjóra nöfn kvennanna. Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá í morgun.

Það var í lok síðasta árs sem hið svokallaða PIP-mál kom upp. Þá varð ljóst að Jens Kjartansson hafði sett gallaða sílíkonpúða í fjölda kvenna. Í framhaldi af málinu hófst rannsókn skattayfirvalda á bókhaldi Jens vegna gruns um skattsvik.

Saga Ýrr Jónsdóttir er lögmaður tuga kvenna sem ætla í mál við Jens, og það eru nöfn og kennitölur þessara kvenna sem skattrannsóknastjóri vill fá.

Saga neitaði beiðni skattayfirvalda með vísan í trúnað milli lögmanns og skjólstæðings. Þegar fréttastofa náði tali af henni í morgun sagðist hún ætla að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.

Skattrannsóknastjóri fór með þetta mál fyrir dómstóla eftir að Saga hafði neitað.

Hann vísar í lög um tekjuskatt þar sem segir að öllum sé skylt að veita skattayfirvöldum þær upplýsingar sem óskað er vegna skattarannsóknar.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur ekki áður reynt á þessi ákvæði á Íslandi gagnvart lögmönnum, en þagnarskylda þeirra gagnvart skjólstæðingum sínum er afar rík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×