Innlent

Rof á trúnaðarsambandi

Erla Hlynsdóttir skrifar

Lögmaður kvenna sem ætla í mál við Jens Kjartansson lýtalækni segir það rof á trúnaðarsambandi sínu við umbjóðendur, að henni sé gert að afhenda skattrannsóknastjóra nöfn og kennitölur kvennanna. Hún ætlar að áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar.



Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að lögmaðurinn þurfi að afhenda skattrannsóknastjóra gögnin.



Málið kom upp í framhaldi af svonefndu PIP-máli þegar grunur kom upp um skattsvik Jens og rannsókn hófst.



Eftir að Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður, neitaði að afhenda gögnin fór skattrannsóknastjóri með kröfuna fyrir héraðsdóm.



„Sem lögmaður hefði ég auðvitað viljað sjá þetta fara á hinn veginn," segir Saga. „Ég lít svo á að þagnarskylda lögmanna sé mjög rík og að þetta trúnaðarsamband sé mikilvægt. Það er ekki þægilegt að vita til þess að opinberar stofnanir eins og skattrannsóknarstjóri geti krafist gagna hjá okkur."



Þá segir Saga að niðurstaðan hafi ekki komið sér á óvart.



„Þetta er í rauninni bara rökstutt með því að þeir séu að gæta meðalhófs, að þetta sé hluti af þeirra starfi og að þeir séu að gæta almannahagsmuna með þvi að skattrannsóknarstjóri nái að sinna skyldum sínum," segir Saga en hún hefur ekki enn rætt við umbjóðendur sína um úrskurðinn.



„Mér finnst í rauninni rétt að fá endanlega niðurstöðu áður en ég fer aðræða þetta af einhverju ráði við umbjóðendur mína."



Þá segir að Saga að hún viti ekki til þess að sambærileg mál hafi komið upp hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×