Innlent

Mismunurinn dygði fyrir Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Landsvirkjun segir ríkisstjórnina hafa sniðgengið arðsemi og hagkvæmni við gerð rammaáætlunar. Sparnaður sem næðist með því að leyfa hagkvæmustu virkjunina dygði fyrir bæði Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum.

Við sögðum í gær frá andmælum Landsvirkjunar gegn því að Norðlingaölduveita fari í verndarflokk en fyrirtækið segir í greinargerð að hagkvæmni og arðsemi séu sniðgengin við flokkun virkjunarkosta og það sé í andstöðu við markmið laganna. Einungis séu leyfðir tveir litlir og óhagkvæmir vatnsaflskostir en enginn af þeim hagkvæmustu.

Þeir fimm sem Landsvirkjun telur arðbærasta eru allir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu;Tungnaárveita, Norðlingaölduveita, Urriðafossvirkjun, Bjallavirkjun og Hvammsvirkjun, og eru ýmist settar í verndar- eða biðflokk.

Norðlingaölduveita var fyrir níu árum næst í röðinni hjá Landsvirkjun en var þá vegna deilna sett á bið og Búðarhálsvirkjun tekin fram fyrir.

Samanburður þessara tveggja kosta sýnir vel þá fjárhagslegu hagsmuni sem um er að tefla en Búðarhálsvirkjun, sem nú er smíðum, upp á 585 gígavattstundir, kostar 26 milljarða króna. Norðlingaölduveita skilar álíka mikilli orku, 605 gígavattsstundum, en kostar mun minna, eða 17,3 milljarða króna, samkvæmt tölum Landsvirkjunar.

Mismunurinn, 8,7 milljarðar, dugar nánast fyrir Norðfjarðargöngum, sem áætla má að kosti um níu milljarða.

Samanburður við Hvammsvirkjun, þá stóru vatnsaflsvirkjun sem líklegast má telja út frá umræðu um rammaáætlun að stjórnarflokkarnir geti fallist á næst, sýnir enn meiri mun. Þessi tveir kostir skila álíka mikilli orku. Hvammsvirkjun kostar hins vegar um 33 milljarða króna, en Norðlingaölduveita um 17 milljarða, næstum helmingi minna.

Mismunurinn, tæpir sextán milljarðar, er álíka fjárhæð og ætla má að bæði Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöng kosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×