Innlent

Bíð eftir að vakna upp af draumnum

Magnús Samúelsson.
Magnús Samúelsson. Mynd/Valli
Magnús Samúelsson vaxtarræktarmaður hefur unnið til fernra verðlauna á fjórum alþjóðlegum mótum á síðastliðnum fjórum vikum.

„Þessi árangur er ótrúlega góður og ég er ekki enn farinn að átta mig á þessu. Fólk í kringum mig er búið að vera að reyna að berja það inn í hausinn á mér en ég er bara að bíða eftir að ég vakni af draumi," segir Magnús.

Hann vann til gullverðlauna í sínum flokki á tveimur mótum í Noregi og einu í Austurríki. Silfurverðlaun bættust í safnið á móti í Danmörku og svo náði hann einnig heildarverðlaunum á mótinu í Austurríki og öðru mótinu í Noregi.

„Það var ótrúlega flott að ná heildarverðlaununum á International Austrian Champhionship í Austurríki. Þetta var svo stórt mót, um fimmtíu manns og keppinautarnir voru í rosalegu formi. Ég stóð við hliðina á einum hroðalegum gaur sem ég hélt að myndi vinna. Þegar tilkynna átti um heildarverðlaunin var ég bara farinn að fá mér vatn og kominn í buxur af því ég hélt að þessi hroðalegi myndi taka þau en svo var mitt nafn kallað og ég fékk bara algjört sjokk."

Magnús, sem er 35 ára, segist bara vera að byrja í íþróttinni. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer að keppa á alþjóðlegum mótum og ég bjóst þess vegna engan veginn við þessum góða árangri. Keppendur á þessum mótum voru á aldrinum 35 til 45 ára þannig að ég á nóg eftir. Að ná þessum góða árangri hvetur mann áfram og vonandi fæ ég fleiri góða aðila til að standa við bakið á mér. Ég stefni á að koma enn sterkari á þetta mót á næsta ári en ætla að byrja á því núna að ná mér niður á jörðina". -lbh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×