Innlent

Eldsvoði við Vesturvör: Íbúðirnar ósamþykktar

Eldurinn kom upp á neðri hæð hússins en fólkið svaf á efri hæðinni.
Eldurinn kom upp á neðri hæð hússins en fólkið svaf á efri hæðinni. Mynd/Sigurjón
Vistarverur í iðnaðarhúsi við Vesturvör í Kópavogi, þar sem fimm manneskjur, voru hætt komnar þegar eldur kviknaði í nótt, eru ekki samþykktar sem íbúðarhúsnæði.

Eldurinn kviknaði um klukkan hálf þrjú í nótt og voru fjórir fluttir á slysadeild Landspítalans með vott af reykeitrun, þar af eitt barn og ein kona, en einn vildi ekki fara á sjúkrahús.

Að sögn varðstjóra slökkviliðsins, sem fór á staðinn var fólkið orðið sótugt þegar það slapp út og hefur því verið búið að anda að sér reyk. Búið er að breyta öðrum enda hússins í íbúðarhúsnæði til útleigu og svaf fólkið í herbergjum á efri hæð þegar eldurinn kviknaði í ísskáp í sameiginlegu eldhúsi á neðri hæð.

Svo vel vildi til að einhver vaknaði við reykinn og gat vakið hina í tæka tíð, því reykskynjari mun ekki hafa verið í eldhúsinu. Var fólkið, sem er erlent, komið út þegar slökkvilið kom á vettvang.

Slökkvistarf gekk vel og var húsnæðið reykræst. Eldvarnareftirlit Slökkviliðsins skoðaði þetta húsnæði fyrir nokkrum árum og sá þá ekki svo alvarlega ágalla að tilefni væri til lokunar.

Meðal annars þar sem örugg flóttaleið er úr húsnæðinu inn á iðnaðarsvæðið í húsinu og þaðan út, ef aðalútgangur tepptist. Þá hefur eftirlitið takmörkuð úrræði í svona málum, eftir því sem Frétastofan kemst næst, því þau heyra undir fleiri, eins og til dæmis skipulagsyfirvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×