Innlent

Þórólfur: Allt opinberar upplýsingar

Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson
„Þetta heitir að hlaupa í manninn en láta boltann vera. Allar þær upplýsingar sem ég nefni þarna eru opinberar upplýsingar, eða upplýsingar sem ég hef fengið eftir öðrum leiðum," segir Þórólfur Matthíasson, sem ritaði grein í Fréttablaðið í dag um ársreikninga Bændasamtakanna.

Haraldur Benediktsson, formaður samtakanna, segir í við Vísi í dag að Þórólfur ætti að segja af sér í eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun vegna greinarinnar. „Við höfum verið í trúnaðarsambandi við bankann og þessi grein hefur neikvæð áhrif á ferli skuldaendurskoðun hótelanna, en sumar upplýsingar sem í henni birtast koma ekki fram í þeim gögnum sem hann vitnar til," sagði Haraldur.

Þórólfur er hinsvegar ekki á sama máli. „Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úrskurð þess efnis að landbúnaðarráðuneytinu bæri að afhenda mér ársreikning Bændasamtakanna. Ég fékk hann fyrir tilstuðlan úrskurðarnefndarinnar. Svo náði ég í ársreikning Hótels Sögu ehf. á vefsíðunni Keldan.is. Það getur hver sem er gert það, ég þurfti bara að borga 2000 krónur fyrir það. Síðan las ég grein í Morgunblaðinu, sem er skrifuð 4. febrúar árið 2006, skrifuð af Agli Ólafssyni blaðamanni á Morgunblaðinu. Þar kom fram að kauptilboð upp á 4,3 milljarð hafi borist í hótelin það ár."

Um þær kröfur Haraldar að Þórólfur segir af sér sem nefndarmaður í eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun segir Þórólfur: „Það er ekkert þarna sem kom vegna starfa minna í sértækri skuldaaðlögun. Það er með ólíkindum að Haraldur skuli reyna að drepa málinu á dreif með þessum hætti, í staðinn fyrir að svara spurningum mínum."




Tengdar fréttir

Sakar Þórólf um að hafa skaðað skuldaendurskoðun hótelanna

"Hann er þarna að tjá sig um fyrirtæki sem eru á viðkvæmu stigi og hefur valdið okkur miklum skaða með þessari grein,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, um grein sem Þórólfur Matthíasson, ritaði í Fréttablaðið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×