Innlent

Berklameðferðir hafa skilað góðum árangri

Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, segir að góðar meðferðir séu við berklasmiti hér á landi sem hafi reynst vel.
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, segir að góðar meðferðir séu við berklasmiti hér á landi sem hafi reynst vel.
"Þetta er viðráðanlegt mál og þær meðferðir sem er boðið upp á hér á landi ganga vel," segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir um berkla. Krummi Björgvinsson, oft kallaður Krummi í Mínus, greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi að hann hefði farið í rannsóknir á lungnadeild Borgarspítalans sem hafi leitt í ljós að hann gæti verið með berkla. Hann fær niðurstöður úr rannsóknunum bráðlega.

Berklasmit á Íslandi eru ekki algeng, að sögn Haraldar. „Við, ásamt hinum Norðurlöndunum, erum með mjög lága tíðni samanborið við önnur lönd. Þetta er mikið í Austur-Evrópu, í Rúmeníu og Búlgaríu, og baskensku löndunum. Berklar eru þarna ennþá. Það eru svona fjögur tilfelli sem koma upp hérna á ári," segir hann.

Hann segir að síðasta árið hafi verið tiltölulega rólegt en þeir sem greinast með berkla hér á landi sé yfirleitt fólk sem hefur verið erlendis, útlendingar eða eldra fólk. „Það er þá fólk sem er að fá gamla berkla sem það fékk þegar berklafaraldurinn gekk á sínum tíma en veiktist ekki þá. Svo þegar það er komið á efri ár þá veikist ónæmiskerfið og þeir blossa upp."

Haraldur segir að þegar fólk hér á landi greinist með berkla sé vel að verki staðið. „Fyrst er greint hvort að um berklasmit sé að ræða og síðan er berklameðferð. Menn hætta að smita mjög fljótlega eftir að meðferðin hefst, ef það eru lungnaberklar þá eru menn í einangrun þar til lyfin byrja að virka," segir Haraldur. „Það sem gerist svo er að það þarf að athuga fólk í kringum þann sem hefur smitast. Það þarf að taka berklasmit hjá þeim."

Hann segir þessa meðferð hafa gengið vel. „Þetta hefur gengið mjög vel og hefur verið svona í mörg herrans ár. Við erum ekki búin að taka eftir neinum faraldri sem hefur brotist út í kringum einstök berklatilfelli."


Tengdar fréttir

Krummi í einangrun - gæti verið með berkla

Það skýrist bráðlega hvort að Krummi Björgvinsson, oft kallaður Krummi í Mínus, sé með berkla. Hann var lagður inn á lungnadeild Borgarspítalans í gær og hefur verið í einangrun síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×