Innlent

"Fésbókin hefur ekki stoppað"

„Ég var að aka úr bænum þegar ég sá tunglið," segir Halldór Sigurðsson. Ljósmynd sem hann náði af ofurmánanum í nótt hefur vakið heimsathygli en hún birtist á vefsíðu bandarísku fréttastofunnar CNN í nótt.

„Ég var staddur hjá Perlunni. Sólin var að setjast fyrir aftan mig og tunglið reis hægt fyrir framan," segir Halldór. „Þetta var ótrúlega fallegt."

Síðustu ár hefur Halldór verið iðinn við að taka myndir og dreifa þeim á veraldarvefnum. Þá hafa myndir hans vakið mikla athygli með hjálp iReport verkefnisins sem CNN stendur fyrir.

„Ég hef myndað mikið í gegnum tíðina og tek bæði ljósmyndir og myndbönd," segir Halldór. Á Facebook-síðu hans má finna fjölda ljósmynda en Halldór hefur fylgst vel með þjóðfélagsástandinu hér á landi.

mynd/Halldór Sigurðsson
En Halldór fylgist ekki aðeins með þjóðfélagslegum atburðum - hann hefur einnig dálæti á íslenskri náttúru. „Þetta er bara landkynning. Ég hvet fólk til að deila myndunum og vekja athygli á landinu."

Ljósmyndin sem Halldór náði af ofurmánanum í nótt hefur vakið gríðarlega athygli. Þá segir Halldór að myndinni hafi verið deilt tæplega 600 sinnum síðan hún birtist á samskiptamiðlinum í gærkvöld. Hápunktinum var síðan náð þegar CNN birti myndina á vefsíðu sinni.

Halldór segist vera afar ánægður með velgengni ljósmyndarinnar. „Fésbókin hefur ekki stoppað síðan ég setti myndina inn," segir Halldór hlæjandi.

Halldór náði einnig glæsilegu myndbandi af ofurmánanum en það má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Ofurmáni á himni í nótt

Í nótt mátti sjá óvenju stórt tungl á himni en þá var það eins nálægt jörðinni og mögulegt er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×