Innlent

Fjármálaráðherra líst vel á breytingar á skattkortakerfinu

Oddný Harðardóttir
Oddný Harðardóttir
Fjármálaráðherra segir breytingar á skattkortakerfinu vera eitt af þeim verkefnum sem skoða þarf breytingar á. Hún efast ekki um að hægt sé að auka hagkvæmni með að nýta tækninýjungar til breytinga.

Ríkisskattstjóri, Skúli Eggert Þórðarson, lýsti í hádegisfréttum okkar í gær hugmyndum sem nú eru í skoðun um að leggja niður skattkortakerfið á næstu árum og það verði sett í vald launagreiðanda sjálfra að ákveða persónuafslátt með virku eftirliti frá ríkisskattstjóra. Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra tekur vel í þessar hugmyndir.

„Þetta er eitt af þeim verkefnum sem hefur verið svolítið í umræðunni, hvernig mætti vinna að einföldun bæði fyrir atvinnurekendur og launþega," segir Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra. „Mér líst ágætlega á að skoða það en það þarf að finna út úr því hvernig er hægt að nýta tækniframfarir í þessu skyni og hvaða lagabreytingar þurfi að fylgja svo þetta geti orðið að veruleika."

Skúli sagði í viðtali við fréttastofu í gær að slíkt kerfi myndi auka hagkvæmni sérstaklega þar sem launakerfin í dag eru mun betri en fyrir 25 árum þegar skattkortakerfið var tekið upp, Oddný tekur undir þetta.

„Ég efast ekki um að það megi gera þetta á miklu einfaldari og þægilegri máta."

Hún segir þessar breytingar hins vegar ekki gerðar á einum degi og þetta sé meðal margra verkefna sem þarf að skoða.

„Ég geri ráð fyrir að það verði farið yfir á næstu vikum en þetta er verkefni sem tekur tíma að vinna og það fylgja því heilmiklar breytingar ef það á að ganga alla leið til einföldunar," segir Oddný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×