Innlent

Stríð á byggingavörumarkaði: "Tittlingaskítur og væl“

Örtröð myndaðist fyrir utan Bauhaus á opnunardaginn.
Örtröð myndaðist fyrir utan Bauhaus á opnunardaginn.
Framkvæmdarstjóri Bauhaus gefur lítið fyrir athugasemdir samkeppnisaðilanna á auglýsingum félagsins sem hann kallar tittlingaskít og væl. Verðvernd fyrirtækisins tryggi kúnnanum einfaldega alltaf besta verðið.

Opnun Byggingavöruverslunarinnar Bauhaus hefur vart farið framhjá neinum en segja má að þeir hafi komið inn á markaðinn með miklum hvelli, markað sem tvö fyrirtæki, Húsasmiðjan og Byko hafa sinnt um árabil.

Meðal annars hefur Bauhaus í auglýsingum sínum haldið því fram að þeir séu bæði með lægsta verð í Reykjavík og besta verð á landinu. Forstjóri Húsasmiðjunnar sagði í fréttum okkar í gær að sínu mati væru menn að ganga þarna of langt. „Það er náttúrulega bannað að fullyrða svona í efsta stigi og þegar við sjáum að það stenst ekki eins og við höfum séð, þá munum við taka til okkar ráða í því og leita til Neytendastofu með það," sagði Sigurður Arnar Sigurðsson forstjóri Húsasmiðjunnar í fréttum okkar í gær.

Halldór Sigurðsson framkvæmdarstjóri Bauhaus segist ekkert vera að fara úr límingunum út af málinu en finnst „samt svolítið undarlegt að þessir háu herrar þarna séu að ergja sig út af svona hlutum," segir Halldór og bætir við: „Mér finnst þetta nú vera tittlingaskítur og væl í þessum forstjórum."

Halldór segir að þeir geti vel staðið við auglýsingarnar þar sem verðvernd fyrirætkisins tryggi alltaf lægsta verðið. Ef kúnninn sér vöruna ódýrari annarsstaðar, fái hann mismuninn greiddan plús tólf prósent ofan af verði samkeppnisaðilans. „Þetta er mikill þrýstingur á okkar fyrirtæki að við stöndum okkur alltaf í stykkinu með þetta, að kúnninn fái alltaf lægsta verðið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×