Innlent

Níu sinnum þurft að innkalla vörur

Það sem af er ári hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur níu sinnum þurft að innkalla matvörur þar sem skortur er á merkingu um að vara innihaldi efni sem geta valdið ofnæmi eða óþoli. Dæmi er um að barn hafi fengið ofnæmisviðbrögð eftir að hafa borðað smáköku sem innihélt hnetur en ekkert stóð á umbúðunum.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendi síðast í dag frá sér tilkynningu um innköllun matvöru. Um var að ræða smákökur með súkkulaðibitum en á umbúðirnar vantaði upplýsingar um að í þeim væri sojaafurð sem getur verið ofnæmis- og óþolsvaldandi. Það sem af er ári hefur eftirlitið níu sinnum þurft að innkallavörur vegna skorts á réttum merkingum. Þannig hefur til dæmis vantað upplýsingar um að í vörunum hafi verið glúten, mjólk eða krabbi.

Þá er dæmi um að drengur hafi fengið ofnæmisviðbrögð eftir að hafa borðað smáköku sem innihélt hnetur en slíkt var ekki merkt á umbúðirnar.

Fríða Rún Þórðardóttir situr í stjórn Astma og ofnæmisfélagsins. Hún segir gríðarlega mikilvægt að matvæli séu rétt merkt.

„Ef þú ert með ofnæmi þá ertu náttúrulega með ofnæmi fyrir vörunni og þá þarftu að taka hana út úr mataræðinu þínu. Auðvitað er þetta misalvarleg og það er hægt að vera með óþol og með ofnæmi. Eins og í tilfelli hnetuofnæmis þá er það bara lífshættulegt að lenda í slíku og fólk þarf að vera með varann á sér alltaf."

Þá segir hún tilkynningum til félagsins vegna rangra merkinga hafa fjölgað.

,, Þetta hefur greinilega aukist en ég held að það sé líka það að fólk er orðið meðvitaðra og er öflugra í því að tilkynna og fólk veit hvert það á að tilkynna en það hjálpar okkur að komast fyrir þetta".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×