Innlent

Reyndi að reykja búnt af sígarettum og kveikti í svölunum

Reykmetið slegið. Líklega kveikti þessi í ekki í neinu öðru en lungunum þegar hann reykti sígarettubúntið.
Reykmetið slegið. Líklega kveikti þessi í ekki í neinu öðru en lungunum þegar hann reykti sígarettubúntið.
Nokkrir unglingspiltar í Reykjavík voru að fikta með sígarettur á trésvölum í íbúðarhúsi á dögunum samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni. Einn þeirra gekk þó lengra en hinn venjulegi reykingamaður, því sá batt saman allnokkrar sígarettur og hugðist reykja þær allar í einu.

Það gekk heldur brösuglega og endaði pilturinn á því að kasta tóbaksbúntinu frá sér. Piltarnir snéru sér því næst að einhverju öðru og yfirgáfu svalirnar.

Því miður gleymdu þeir hins vegar að drepa í sígarettunum og svo fór að það kviknaði í svölunum. Annað heimilisfólk fann síðan reykjalykt og sá eldinn á svölunum þegar það fór að svipast um. Gripið var til slökkvitækis og vel gekk að ráða niðurlögum eldsins en einhverjar skemmdir urðu á svölunum.

Slökkvistarfinu var svo gott sem lokið þegar slökkviliðið og lögreglan komu á vettvang en hætt er við að strákarnir gleymi þessu atviki ekki í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×