Innlent

Sex ára drengur varð vitni að morðtilræði við móður sína

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Karlmaður sem sakaður er um að hafa reynt að bana eiginkonu föður síns þann 1. apríl síðastliðinn mun sæta gæsluvarðhaldi til 30. maí næstkomandi. Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurðinn í dag.

Tvær árásir sömu nótt

Maðurinn réðst á konuna um miðnætti þann dag eftir að hann ásakaði hana um að hafa stolið frá sér 1.500 krónum. Hann réðst á hana þar sem hún sat í sófa í stofunni og tók hana kverkataki og kýldi hana í síðu, hendur og andlit. Þá reyndi hann að kæfa hana með því að halda kodda fyrir andliti hennar. Lögreglan kom að og vísaði manninum út ur íbúðinni. Hann sagði að fyrir þetta yrði hún að fara úr lífi föður síns annars myndi hann drepa hana.

Síðar sömu nótt barst lögreglu tilkynning um að konan væri fyrir framan heimili sitt að hrópa eftir hjálp. Þegar lögregla kom á vettvang var þar hópur fólks saman kominn á stétt fyrir framan heimili konunnar en þrír karlmenn héldu manninum niðri og konan lá meðvitundarlaus í jörðinni um tveimur metrum frá og augljóst að á hana hafði verið ráðist. Á vettvangi fannst stór kertastjaki sem reyndist vera barefli sem notað var til að berja konuna.

Sonurinn vitni að árásinni

Vitni sögðu við lögreglu að sex ára gamall sonur konunnar hafi verið á vettvangi árásarinnar. Einn nágranni konunnar tók hann inn í íbúð til sín til að hlúa að honum en sonurinn óttaðist mjög að mamma sín væri dáin.

Í gæsluvarðhaldskröfu lögreglunnar kom fram að um mjög alvarlega atlögu sé að ræða og tilviljun ein réð því hverjar afleiðingar hennar urðu. Brot mannsins kunni að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×