Innlent

Ræktaði kannabis í blokk

Lögreglan stöðvaði kannabisræktun í íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavogi í dag. Við húsleit á áðurnefndum stað var lagt hald á 70 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Tvö af herbergjum íbúðarinnar voru sérstaklega útbúin fyrir þessa starfsemi. Húsráðandi, karl á fertugsaldri, var handtekinn á vettvangi og færður til yfirheyrslu. Hann hefur ekki áður komið við sögu hjá lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru ræktanir sem þessar í auknum mæli settar upp í fjölbýlishúsum. Í þeim er oft að finna 20-100 kannabisplöntur en undir starfsemina er lagt rými sem telur u.þ.b. 20-50 fm.

„Sá sem að þessu stendur hverju sinni býr ýmist í íbúðinni eða notar hana eingöngu fyrir ræktunina. Iðulega er lagt í mikla vinnu og kostnað til að fela ræktunina og því getur reynst erfitt að greina ummerkin um hana. Oftast er um leiguíbúðir að ræða og verða þær ósjaldan fyrir miklum skemmdum vegna raka, hita, festinga á ræktunarbúnaði og annars frágangs,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×