Innlent

Þarf allt að 10 gengisdóma

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Samráðshópur banka og skuldara upplýsti í dag að upp undir tíu prófmál þurfi að fara fyrir dómstóla til að eyða óvissunni sem skapaðist af síðasta gengislánadómi Hæstaréttar. Umboðsmaður skuldara vonar að málaferlunum ljúki strax í haust.

Um 70 þúsund fyrrverandi gengislán, sem einstaklingar tóku til að fjármagna kaup á íbúðum og bílum, voru leiðrétt eftir að Hæstiréttur dæmdi þau ólögleg í júní 2010. Dómur sem féll í máli hjóna í Vesturbænum í febrúar markaði önnur tímamót, en þá var bönkum meinað að reikna afturvirka seðlabankavexti á lánin í stað gengistryggingarinnar. Gengisdómurinn í febrúar leysti hins vegar fjarri því úr öllum álitamálum. Samráðshópur með fulltrúum banka og skuldara hefur nú fundað vikum saman til að átta sig á þeim spurningum sem svara þarf áður en lánin verða endurreiknuð aftur.

Fulltrúar hópsins hittu efnahags- og viðskiptanefnd alþingis á fundi í morgun og kynntu þar hvernig þeir hygðust leysa þann hnút sem ólöglegu gengislánin eru enn í .

Þangað mætti meðal annars, Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, sem situr í samráðshópnum. Á fundinum var kynnt samantekt fjögurra lögmanna sem sýnir að dómurinn í febrúar hafi vakið um 20 álitamál. Talið sé að höfða þurfi 5-10 prófmál fyrir dómtólum til að leysa úr þeim álitamálum svo hægt verði að fá endanlega niðurstöðu í skuldastöðu fólks sem tók gengislán á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×