Enski boltinn

Velskur landsliðsmaður dæmdur í fimm ára fangelsi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ched Evans í leik með Sheffield United í síðasta mánuði.
Ched Evans í leik með Sheffield United í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnumaðurinn Ched Evans var í dag dæmdur til fimm ára fangelsisvistar vegna nauðgunar. Evans er 23 ára gamall og er á mála hjá Sheffield United í Englandi.

Evans var sakfelldur fyrir að nauðga nítján ára gamalli stúlku. Hann og annar knattspyrmaður, Clayton McDonald hjá Port Vale, voru báðir kærðir fyrir nauðgun en McDonald var sýknaður.

Báðir játuðu að hafa stundað kynlíf með stúlkunni en sögðu að það hefði verið með hennar samþykki. Dómarinn í málinu sagði að myndbandsupptökur sýndu að stúlkan hafi verið augljóslega mjög drukkin og ekki í ástandi til að stunda kynlíf.

Sjálf bar stúlkan vitni um að hún hafi ekkert munað frá kvöldinu og óttaðist að henni hafi verið byrlað ólyfjan.

„Þú hefur nú kastað frá þér farsælum [knatspyrnu]ferli," sagði dómarinn eftir að hafa kveðið upp sinn dóm. Evans er sóknarmaður og á að baki þrettán leiki með A-landsliði Wales. Hann hefur skorað mikið fyrir Sheffield United í ensku C-deildinni í vetur og var útnefndur leikmaður marsmánaðar í deildinni.

Þess má geta að hann skoraði sigurmark Wales í 1-0 sigri þess á Íslandi í vináttulandsleik í Laugardalnum árið 2008.

Smelltu hér til að lesa frétt BBC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×