Innlent

Greinagerðum skilað í lífeyrissjóðsmálinu

Sigrún Ágústa var hvött til þess að halda því fram að Gunnar hefði beitt hræðslustjórnun þegar hann fór með völdin í bænum.
Sigrún Ágústa var hvött til þess að halda því fram að Gunnar hefði beitt hræðslustjórnun þegar hann fór með völdin í bænum.
Lögmenn skiluðu greinagerðum í fyrirtöku í máli ríkissaksóknara gegn fimm stjórnarmönnum í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og þáverandi stjórnarformanni sjóðsins, sem var Gunnar I. Birgisson, þá bæjarstjóri, nú bæjarfulltrúi í Kópavogi. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Flosi Eiríksson, fyrrverandi bæjarfulltrúi og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi hafa einnig verið ákærðir í málinu sem og Jón Júlíusson, Sigrún Guðmundsdóttir og svo Sigrún Ágústa Bragadóttir sem starfaði sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins.

Þau eru meðal annars ákærð fyrir ólögmætar lánveitingar sjóðsins til Kópavogsbæjar haustið 2008 og að hafa reynt að blekkja Fjármálaeftirlitið.

Málið tók sérkennilega stefnu í lok mars þegar Morgunblaðið greindi frá því að bæjarlögmaður Kópavogs, Þórður Clausen Þórðarson, átti að hafa lagt til við Sigrúnu Ágústu að hún hagaði skýrslugjöf sinni i sakamálinu með þeim hætti að Gunnar I. Birgisson hefði beitt hræðslustjórnun þegar hann fór með völdin í bænum - og þar með stjórnað öllu ferli sjóðsins.

Sigrúnu Ágústu á að hafa blöskrað ráðleggingar lögmannsins en hún tók samtalið upp og var það sent til ríkissaksóknara, þar sem Sigrún telur Þórð hafa reynt að hafa áhrif á vitnisburð sinn með óeðlilegum hætti.

Bæjarlögmaðurinn svaraði Sigrúnu síðar með yfirlýsingu og hélt því fram að ásakanirnar væru fráleitar. Hann hafi þvert á móti hvatt hana til þess að segja sannleikann. En um það er deilt. Samkvæmt upplýsingum Vísis þá mun það mál ekki hafa áhrif á málarekstur í þessu sakamáli.

Samkvæmt upplýsingum Vísis verður aðalmeðferð málsins haldin í Héraðsdómi Reykjaness þann 25. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×