Innlent

Þorskárgangurinn sá stærsti frá 1985

Þorskárgangurinn frá því í fyrra er sá stærsti sem mælst hefur frá því árið 1985, samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar. Svonefnd stofnvísitala þorsksins hækkaði líka, fimmta árið í röð og hefur ekki verið hærri í 25 ár.

Þá er meðalþyngd þorsks, sem farið hefur vaxandi undanfarin ár, komin vel yfir meðallag . Við sunnanvert landið var meðalþyngd með því besta í tíu ár , eða frá því vigtanir hófust, og fyrir norðan var þorskurinn í betri holdum en verið hefur síðan 1996. Þetta eru niðurstöður úr svonefndu togararalli, þar sem nokkrir togarar toga á sömu veiðislóðum á sama tíma ár eftir ár.

Einnig berast fréttir af mjög góðum þorskafla hjá þeim bátum, sem núna eru í svonefndu netaralli. Allt bendir því til þess að þorskkvótinn fyrir næsta fiskveiðiár, sem hefst í haust, verði aukinn verulega, en tillögur Hafrannsóknastofnunar um þorskkvóta hvers árs eru byggðar á niðurstöðum þessara tveggja ralla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×