Innlent

Lögbannskrafa tekin fyrir í dag

LVP skrifar
Andrea Ólafsdóttir er forsvarsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Andrea Ólafsdóttir er forsvarsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Lögbannsbeiðni á innheimtu fyrrverandi gengislána heimilanna verður tekin fyrir hjá Sýslumanni Reykjavíkur í dag. Hagsmunasamtök heimilanna og Talsmaður neytenda lögðu í lok síðasta mánaðar fram kröfu um að lögbann verði lagt við því að Landsbankinn sendi út greiðsluseðla vegna fyrrverandi gengislána og innheimti þá. Hagsmunasamtökin segja lögbannsbeiðnina réttmæta þar sem mikil óvissa sé um endurútreikninga á fyrrverandi gengislánum og ætla megi að fjöldi skuldara hafi ofgreitt af lánum sínum.

„Við lögðum fram lögbannsbeiðni til Sýslumanns fyrir páska og fyrirtakan verður í dag. Lögbannsbeiðnin snýr að Landsbankanum en væri fordæmisgefandi fyrir innheimtu greiðsluseðla á öllum gengistryggðum lánum. Rökstuðningur okkar er sá að eftir að dómur féll 15. febrúar í Hæstarétti þá er ljóst að allir greiðsluseðlar og allir endurútreikningar sem að bankarnir hafa sent frá sér eru rangir og þar með er um ólögmæta innheimtu að ræða í öllum tilfellum. Það er þetta sem við viljum stöðva þangað til að réttir reikningar eru komnir," segir Andrea Ólafsdóttir er formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×