Innlent

"Hún flissaði í fjórar klukkustundir"

Merla og Patricia tóku við vinningnum í dag.
Merla og Patricia tóku við vinningnum í dag. mynd/AP
Öldruð hjón í Illinois í Bandaríkjunum stigu fram í dag og tóku við ávísun upp á 218 milljónir dollara. Þau áttu einn af þremur vinningsmiðum í einu stærsta happdrætti sögunnar.

Þau Merle og Patricia Butler keyptu þrjá miða stuttu áður en dregið var í Mega Millions happdrættinu í síðasta mánuði.

Merle er uppgjafarhermaður en hann barðist í Víetnam-stríðinu. Eiginkona hans er fyrrverandi hjúkrunarkona.

Happdrættismiðarnir kostuðu hjónin alls 3 dollara - þetta voru því sannarlega góð kaup enda fengu þau rúma 27 milljarða króna í sinn hlut.

Þau ákváðu að fá nýfengin auðævi sín í einni greiðslu og þurfa því að greiða hluta af fjárhæðinni í skatta.

Merle með vinningsmiðann dýrmæta.mynd/AP
„Patricia sat við hliðin á mér. Ég horfði á hana og sagði að við hefðum unnið," sagði Merle. „Hún horfði síðan hálf undarlega á mig og ég sagði það aftur."

„Hún flissaði síðan í fjórar klukkustundir," bætti Merle við.

Hjónin ákváðu að bíða með að gera tilkall til vinningsins. Síðustu daga hafa þau leitað að framúrskarandi fjármálaráðgjafa sem mun leiðbeina þeim.

„Ætli við förum ekki í almennilegt sumarfrí á næstunni," sagði Merle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×