Innlent

Vel heppnuð jarðarstund - ökumenn keyrðu hægar

Jarðarstundin svokallaða heppnaðist mjög vel í miðborg Reykjavíkur en götuljósin í miðborginni voru ekki kveikt fyrr en klukkan 21.35. Öll lýsing var takmörkuð og slökkt var á nokkrum áberandi byggingum sem iðulega eru upplýstar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Þar segir ennfremur að þeir sem fylgdust með á Arnarhóli hafi haft orð á því á því að ökumenn í bænum keyrðu mun hægar en venjulega. Tilkynningar bárust frá nokkrum hótelum að ljós yrðu slökkt, til dæmis voru einungis kertaljós á Farfuglaheimilinu á Vesturgötu og á Reykjavík Natura við Reykjavíkurflugvöll.

Jarðarstundin eða Earth hour átti sér stað í fleiri en 5000 borgum víða um veröld og tók Reykjavíkurborg þátt í viðburðinum í fyrsta sinn með því að slökkva götuljósin í miðborginni og hvetja heimili og fyrirtæki til að draga úr allri lýsingu og nota kertaljós.

Vonast er til að á næsta ári taki fleiri sveitarfélög og fyrirtæki þátt í viðburðinum sem er vitundarvakning í umhverfismálum. Markmiðið er að spara auðlindir jarðar og efla nægjusemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×