Innlent

Segir veiðigjaldið í raun byggðarskatt

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segist vera afar ósáttur við að dregið hafi verið úr byggðastefnu í nýju frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða sem hann líkir við lestarslys. Þá segist hann ósáttur við nýja hugmyndafræði og að allt veiðigjaldið renni til ríkisins. Veiðigjaldið sé í raun landsbyggðaskattur.

Jón Bjarnason var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Jón lagði fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða á síðasta ári sem þótti mjög umdeilt, en utanríkisráðherra lýsti viðbrögðunum við harðri andstöðu við frumvarpið við það að lenda í bílslysi.

Sjálfur sagði Jón að ef Össur Skarphéðinsson samþykkti núverandi frumvörp væri það í meira í ætt við lestarslys. Hann sagði að sjávarútvegsmálin hefðu verið stærsta mál stjórnarflokkanna. Þess vegna hafi hann farið vígreifur inn í ráðuneytið, en Samfylkingin hafi hins vegar viljað sáttanefnd.

Vinna nefndarinnar tafðist í eitt og hálft ár. Og sagðist Jón hafa viljað leysa nefndina upp. Hendur hans hafi síðan verið mjög bundnar af starfi nefndarinnar þegar hún hafi loksins skilað tillögum af sér í haustið 2010.

„Ég vildi leysa þessa nefnd upp," sagði Jón.

Jón hætti sem ráðherra um áramótin. Á dögunum lagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra fram ný frumvörp um heildarlög um stjórn fiskveiða og veiðigjald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×