Innlent

Forstjóri Ölgerðarinnar fagnar samkeppni á bjórmarkaði

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Forstjóri Ölgerðarinnar fagnar aukinni samkeppni á bjórmarkaði. Hann segir fyrirtækið ekki standa í vegi fyrir því að nýir aðilar komist inn á markaðinn.

Í fréttum Stöðvar 2 á föstudaginn kom fram að eigendur tveggja örbrugghúsa saka Vífilfell og Ölgerðina um að einoka markaðinn fyrir kranabjór hér á landi og hefur annað fyrirtækið sent samkeppniseftirlitinu erindi vegna þessa. Forstjóri Ölgerðarinnar segir mikla samkeppni á markaðnum.

„Það hafa fyrst og fremst verið tveir aðilar á markaði, en nú eru nýjir komnir inn sem ég fagna enda spennandi að fá almennilega bjórmenningu á Íslandi," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Örbrugghúsin saka meðal annars stóru fyrirtækin tvö um að gera samninga við staði um að selja eingöngu bjórtegundir frá þeim og að fyrirtækin fjárfesti í innanstokksmunum vínveitingastaða, á borð við bjórdælur og kæla. Andri telur að slíkt eigi sér ekki stað

Spurður hvort hann geri það erfiðara fyrir nýja aðila að komast á markað, svarar Andri því til að hann líti ekki svo á. „Ég tel svo ekki vera. Við höfum á undanförnum árum tekið okkar samninga í gegn með tilliti til nýlegra laga um samkeppni," segir Andri Þór sem bætir við: „Við viljum helst að samkeppni sé sem mest."

Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells, gat ekki veitt viðtal þegar fréttastofa náði í hann í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×