Innlent

Talsmaður stækkunarstjóra: Viðræður ganga vel vegna góðs undirbúnings

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ísland hefur nú lokað 10 köflum af þrjátíu og þremur í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Á sumum sviðum ganga viðræðurnar afar hratt fyrir sig og undirstrikar það gæði undirbúnings þeirra. Þetta er mat talsmanns stækkunarstjóra ESB.

Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins þokast áfram en á ríkjaráðstefnu í Brussel á föstudag voru fjórir samningskaflar opnaðir og tveimur þeirra lokað strax.

Bara 40 mínútna fundur

Ríkjaráðstefnan á föstudag var í raun bara 40 mínútna fundur. Kafla um utanríkis-, öryggis- og varnarmál og kafla um neytenda- og heilsuvernd var lokað strax og kaflar um samkeppnismál og orkumál opnaðir. „Niðurstaðan er sú að af 33 efnisköflum og efnissviðum sem við erum að fjalla um í þessu samningaferli að þá eru við búin að opna 15 og við erum búin að loka 10 af þessum 15 köflum þannig að þetta er í sjálfu sér ágætur árangur," segir Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu.

Peter Stano talsmaður Štefan Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, segir að framkvæmdastjórnin sé afar ánægð með þann árangur sem náðst hafi í viðræðunum.

Hraðinn ekki aðalatriði, heldur gæði ferlisins

„Þetta hefur áður komið fram hjá framkvæmdastjórninni og einnig hjá Füle stækkunarstjóra að það verði hægt að opna nær alla kaflana í ár. Það er mjög góður hraði en framkvæmdastjórnin segir samt að tímamörkin og hraðinn séu ekki aðalatriðin, við lítum frekar á gæði ferlisins. En sú staðreynd að það er hægt að opna kafla og loka þeim nær samstundis segir mikið um stöðu undirbúnings og gæði viðræðanna því það eru engin vandkvæði. Auðvitað eru fleiri kaflar framundan og þeir kalla á meiri tíma en heildarárangur Íslands í aðildarviðræðunum er afar góður," segir Peter Stano.

Fréttastofan var í Brussel í boði European Journalism Centre, sem eru frjáls félagasamtök sem staðsett eru í Maastricht. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×