Innlent

Fáir skemmtistaðir með kranabjór frá fleiri en einum söluaðila

Tvö örbrugghús hafa sakað Vífilfell og Ölgerðina um að einoka markaðinn fyrir kranabjór og leitaði einn til Samkeppniseftirlitsins síðastliðinn föstudag. Samkvæmt heimildum fréttastofu gerði bjórframleiðandi sem nú hefur lagt upp laupana slíkt hið sama fyrir nokkru en sá segist hafa reynt að koma bjórtegund sinni á dælu í um ár án árangurs þrátt fyrir góða sölu á bjórnum í vínbúðum.

Í öðru erindinu til eftirlitsins er vitnað í samninga sem Vífilfell og Ölgerðin hafa gert við eigendur kráa og veitingastaða, þar sem meðal annars er kveðið á um að staðirnir megi ekki selja bjórtegundir frá keppninautum, að minnsta kosti ekki á dælu. Þannig séu barir margir hverjir annað hvort Vífilfellsbarir eða Ölgerðarbarir. Fréttastofa skoðaði bjórsölu ellefu staða í miðborginni af handahófi til að kanna sannleiksgildi þessarar fullyrðingar og komst að því að þeir bjóða allir upp á dælubjór frá einungis öðrum hvorum söluaðilanum.

Þeir sem selja einungis dælubjóra frá Vífilfelli eru Prikið, Hemmi og Valdi, Kaffibarinn, Íslenski Barinn, Thorvaldsen og Esja. Þeir sem eru aftur á móti einungis með dælubjóra frá Ölgerðinni eru English pub, Vegamót, Danski Barinn, Laundromat og B5.

Flestir staðirnir selja svo einungis léttvín og óáfenga drykki frá sama aðila og selur þeim kranabjórinn en oftar en ekki eru bjórtegundir í gleri frá fleiri en einum aðila. Þá sögðust margir vera með dælur og kæla frá aðalsöluaðilanum en þetta gagnrýndi eigandi eins örbrugghússins í fréttum okkar fyrir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×