Innlent

Ben Stiller ásamt 200 manna fylgdarliði til Seyðisfjarðar í sumar

Ben Stillers.
Ben Stillers.
Senur í væntanlega kvikmynd bandaríska stórleikarans og leikstjórans Ben Stillers verða teknar á Seyðisfirði í haust samkvæmt fréttavefnum, agl.is.

Þar segir að það sé gert er ráð fyrir rúmlega 200 manna fylgdarliði í bæinn og töluverðum umsvifum í bænum í kringum tökurnar. Stiller ferðaðist um Austurlandi um miðjan september og dvaldi meðal annars eina nótt á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Ferðin austur virðist hafa verið ábatasöm því framleiðslufyrirtækið True North, sem heldur utan um för tökuliðsins, hefur boðað komu þess til Seyðisfjarðar í haust.

Gert er ráð fyrir að ríflega 200 manna lið komi til bæjarins, líklega í september, í tengslum við töku á Hollywood-mynd þar sem Ben Stiller verður leikstjóri og einn aðalleikara. „Senur verða teknar á leiðinni niður heiðina og inn í bæ," segir í minnisblaði fjármálastjóra bæjarins sem nýverið var tekið fyrir í bæjarstjórn og agl.is greinir frá.

Tökuliðið verður á Seyðisfirði í nokkra daga og fylgir því töluvert umstang. Óskað er eftir plássi undir bíla, mötuneytisaðstöðu, skrifstofu og fleira. Undirbúningur fyrir tökurnar hefst í Reykjavík um miðjan júní.

Myndin ber heitið „The Secret Life of Walter Mitty" og er endurgerð á vinsælli kvikmynd frá árinu 1947. Söguþræðinum hefur þó lítillega verið breytt. Í nýju útgáfunni er Walter Mitty, sem Stiller leikur, myndaritstjóri tímarits sem hefur ofan af fyrir sjálfum sér með dagdraumum. Hann fær tækifæri til að upplifa alvöru ævintýri þegar ein frummyndin úr safninu týnist.

Með aðalkvenhlutverkið í myndinni fer Kirsten Wiig sem festi sig í sessi með sumarsmelli síðasta árs, Bridesmaid. Þar lék hún aðalhlutverkið og skrifaði handritið.

Þá er á leikaraskránni Shirley MacLaine sem fjórum sinnum hefur verið tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta leikkona í aðalhlutverki auk þess sem hún hampaði styttunni árið 1983 fyrir leik sinn í Terms of Endearment.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×