Innlent

Vigdís um kvenréttindabaráttuna: Öfgar geta eyðilagt góðan málstað

Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands í 16 ár.
Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands í 16 ár. mynd/GVA
„Ég vil ekki að karlar þurfi að upplifa það sem konur þurftu að upplifa áður, að konur séu orðnar það sterkar að karlar þurfi að hafa sig alla við til að viðhalda jafnrétti," segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands. Hún segir það mikil forréttindi að fá að fæðast á Íslandi og að íslenska þjóðin sé mjög samhent.

Vigdís er í viðtali við Monitor í dag. Í viðtalinu segist hún vera mikil kvenréttindakona en hún sé að verða meiri og meiri karlréttindakona því hún vilji hafa jafnvægi í þjóðfélaginu. „Mér finnst mikilvægt að karlar og konur standi jafnfætis í þjóðfélaginu. Gæfan er sú að karlar og konur hafa svo mikinn stuðning hvert af öðru því hvort kynið fyrir sig hugsar eilítið öðruvísi en hitt kynið."

Hún segir að ótrúlega margt hafi áunnist í kvennréttindabaráttunni en ekki sé þó algjör jafnrétti. Hún segist fylgjast með umræðu um öfgafemínista. „Við vitum öll að á meðan launajafnrétti er ekki náð þá er ekkert jafnrétti. Það verður að meta störf kvenna til jafns við störf karla. Hinn gullni meðalvegur er þó alltaf sterkastur. Allar öfgar fara öfugt inn í hugsanagang samfélagsins, barátta sem er mjög öfgafull snýst upp í andhverfu sína. Auðvitað fylgist ég með allri umræðu um slíkt og ég segi: Gætum varhug við því, öfgarnar geta eyðilagt góðan málstað."

Hún segir mikla framtíðarmöguleika á Íslandi. „Það eru allavega mikil forréttindi að fá að fæðast á Íslandi vegna þess að við erum svo fá að hver og einn sem fæðist hér hefur mikla framtíðarmöguleika. Hér er okkur gefin besta gjöf sem hægt er að gefa nokkrum manni. Þú færð það afhent á silfurbakka að læra að lesa. Það er gjöf, því það er ólíklegt að þú hafir þig eftir því upp á eigin spýtur að læra að lesa þegar þú ert fimm eða sex ára. Þegar til kastanna kemur er þessi þjóð mjög samhent, þú sérð það ef eitthvað bjátar á. Ef það er sjóslys, eldgos eða eitthvað stórt kemur fyrir þjóðina þá standa allir saman eins og einn maður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×