Innlent

Skuldir heimila sem hlutfall af landsframleiðslu mun lægri en í Danmörku

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Skuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu eru lægri á Íslandi en á Írlandi, í Hollandi og Danmörku. Samanburður við Danmörku er merkilegur fyrir þær sakir að mun fleiri búa í eigin húsnæði hér á landi en þar.

Skuldir íslenskra heimila urðu mestar um 1.940 milljarðar króna eða um 129 prósent af landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi 2009. Síðan hafa skuldirnar lækkað nokkuð stöðugt og námu í lok síðasta árs um 107 prósent af landsframleiðslu, samkvæmt Fjármálastöðugleika, riti Seðlabankans.

Upp úr síðustu aldamótum voru skuldir heimila hérlendis sem hlutfall af landsframleiðslu á svipuðu róli og í Danmörku og Hollandi, en nú 10 árum síðar stefnir í að skuldirnar verði töluvert lægri hér á landi en í þessum löndum og þá hafa skuldir heimila á Írlandi aukist umtalsvert á tímabilinu og eru nú meiri en íslenskra heimila.

Í sjónvarpsútgáfu fréttinnar og í grafík hér til hliðar gefur að líta töflu yfir skuldsetningu heimila í nokkrum löndum sem hlutfall af landsframleiðslu. Um er að ræða tölfræði fyrir árið 2010 og eins og sést eru skuldir heimila í Danmörku rúmlega 140 prósent af landsframleiðslu, í Hollandi er þetta hlutfall um 125 prósent og svipað á Írlandi. Í lok árs 2010 voru skuldir íslenskra heimila hins vegar komnar undir 120 prósentin og á súlunni lengst til hægri sem gildir fyrir árið 2011 sést að þær hafa enn lækkað og eru komnar undir 110 prósent og voru raunar komnar í 107 prósent í lok síðasta árs. Þessar upplýsingar er að finna á vef Seðlabankans.

Sérstaka athygli vekur að skuldir íslenskra heimila séu svona mikið lægri á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu en í Danmörku, því hlutfall þeirra sem eiga eigið húsnæði er mun hærra hér á landi en þar. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×