Innlent

Segir andstöðu gegn Vaðlaheiðargöngum með ólíkindum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bæjarstjóri Akureyrar segir með ólíkindum hvernig allskyns hlutir séu leitaðir uppi gegn Vaðlaheiðargöngum og hvetur stjórnvöld til að drífa framkvæmdina af stað nú þegar.

Fimm mánuðum eftir að tilboð voru opnuð í gerð Vaðlaheiðarganga situr verkefnið fast í meðförum ríkisstjórnar og Alþingis. Bæjarstjórinn á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, kallar eftir ákvörðun. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 segir hann skelfilegt að verkefni, sem búið er að undirbúa í mörg ár, skuli lenda í stoppi á síðustu metrunum.

Hann segir umræðuna hafa þróast með ólíkindum. Verið sé að leita uppi allskyns hluti sem í raun skipti engu máli. Aðalatriðið, segir hann, sé að Vaðalheiðargöng skapa tekjur fyrir þjóðarbúið, öryggi fyrir íbúana og sé samgöngumannvirki til framtíðar. Það sé því ekki verið að tjalda til einnar nætur, segir Eiríkur Björn.

Hann segir alrangt, sem haldið er fram, að Vaðlaheiðargöng taki fjármuni frá verkefnum í öðrum landshlutum. Norðlendingar styðji framkvæmdir í öðrum landsfjórðungum og þeir finni ekki annað en að stuðningur sé við þetta verkefni úr öðrum landsfjórðungum.

"Aðalmálið er það að menn fari að hysja upp um sig og drífa sig í þessa framkvæmd, - sem og aðrar framkvæmdir á öðrum svæðum á landinu," segir bæjarstjóri Akureyrar.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×