Innlent

Olíudómi verður áfrýjað

Magnús Halldórsson skrifar
Íslenska ríkið þarf að endurgreiða olíufélögunum sektargreiðslur vegna verðsamráðs upp á einn og hálfan milljarð króna samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur. Félögin nutu að mati dómara ekki andmælaréttar í samræmi við lög.

Mál er tengjast samráði olíufélaganna á árunum 1993 til og með meirihluta árs 2001, hafa verið til umfjöllunar í réttarkerfinu allt frá því samkeppnisyfirvöld gripu til aðgerða gegn olíufélögunum með húsleitum, hinn 18. desember 2001.

Hinn 28. október 2004 birtu samkeppnisyfirvöld síðan ákvörðun sína, eftir ítarlega rannsókn, og komust m.a. því "að olíufélögin hafi frá gildistöku samkeppnislaga haft með sér yfirgripsmikið og óslitið samráð um verð, markaðsskiptingu og gerð tilboða."

28. janúar 2005 staðfestir áfrýjunarnefnd samkeppnismála síðan sekt á hendur olíufélögunum upp á 1,5 milljarð króna. Frá þeim tíma hefur Hæstiréttur í nokkur skipti staðfest að samráð olíufélaganna hafi sannarlega verið fyrir hendi og valdið, sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum, fjárhagslegu tjóni.

Nú ríflega sjö árum síðar, eftir áralanga málsmeðferð í dómskerfinu, felldi Héraðsdómur Reykjavíkur dóm sinn og gerði samkeppnisyfirvöldum og ríkinu að endurgreiða olíufélögunum sektirnar.

Eina ástæðan fyrir þessari niðurstöðu, samkvæmt dómi héraðsdóms, er að olíufélögin hafi ekki notið andmælaréttar við rannsókn málsins, þar sem málið hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu og samkeppnisyfirvöldum á sama tíma. Orðrétt segir í dóminum:

Þar sem um íþyngjandi ákvörðun var að ræða fyrir stefnendur, og ákvörðun sem varðaði verulega fjárhagslega hagsmuni, áttu stefnendur ótvíræðan rétt á að geta gætt hagsmuna sinna án þess að eiga það á hættu að upplýsingar þær er þeir veittu myndu rata á borð lögregluyfirvalda og vera notaðar gegn þeim þar. Við þessar aðstæður var andmælaréttur stefnenda lítils virði. Hér er því um að ræða verulegan annmarka á málsmeðferðinni sem leiðir til þess að felldur er úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála

Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið ætla að áfrýja dóminum til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×