Innlent

Grásleppan sendir fræðingunum "puttann“

Grásleppuvertíðin fer vel af stað fyrir norðan en þetta er í fyrsta sinn sem bannað er að henda grásleppunni í sjóinn eftir að búið er að hirða úr henni hrognin.

Við Eyjafjörð byrjuðu flestir að leggja grásleppunetin fyrir viku og í Grenivíkurhöfn hitti Stöð 2 þá Þórð Ólafsson og Ingólf Björnsson, sem voru að gera klárt fyrir róður á Elínu ÞH.

Þórður, sem stundað hefur grásleppuveiðar í aldarfjórðung, segir þessa byrjun nú með skásta móti, miðað við undanfarin ár. Meðan fræðingarnir tali um að þetta sé að verða búið og óvissa sé um stofnstærð, þá sýni grásleppan sig og sendi fræðingunum langaputtann, segir Þórður.

Lengi vel var grásleppa nær eingöngu veidd til að hirða úr henni hrognin en nú er í fyrsta sinn lagaskylda að koma með allan fiskinn að landi. Á Grenivík er grásleppan heilfryst í frystihúsi Gjögurs og þannig seld til Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×