Innlent

Breytingar á tíðnisviði gætu kostað rekstraraðila hundruð milljóna

Breytingar Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðinisviði, sem lengi hefur verið notað undir þráðlausa hljóðnema og annan hljóðbúnað, gætu kostað útsendingaraðila og leikhús mörg hundruð milljónir. Rekstraraðilar þurfa því að greiða fyrir endurstillingi hljóðbúnaðarins eða kaupa nýjan.

Ákveðið hefur verið að stærsti hluti tíðnisviðsins 790 til 862 MHz verði notað undir farnetsþjónustu í framtíðinni. Farnetsþjónustan tekur til þráðlausrar farþjónustu á borð við 4G. Þjónustan nefnist á ensku „Long Term Evolution" og er iðulega skammstöfuð LTE.

Samkvæmt Jakobi Tryggvasyni, formanni Félags tæknifólks í rafiðnaði, hefur breytingin alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Tíðnisviðið 790 til 862 MHz hefur lengi verið notað af sjónvarpsstöðvum. „Við höfum fleytt þráðlausu hljóðnemunum inn á milli sjónvarpsstöðvanna," segir Jakob. „En nú eru sjónvarpsstöðvarnar að færa sig af þessari tíðni og við sitjum eftir. Núna vill Póst- og fjarskiptastofnuna eigna sér tíðnina og nota hana undir farnetsþjónustuna."

„Þetta ferli er nú að hefjast og fyrsta sneiðin sem þeir vilja taka af tíðninni er einmitt sú sem við notum."

Jakob segir breytinguna hafa veruleg áhrif á útsendingaraðila, tónleikahaldara og leikhús hér á landi. Þá segir hann að fyrirvari Póst- og fjarskiptastofnunar sé afar knappur og að lítill tími gefist til hagræðingar í rekstri fyrirtækjanna vegna aukinna fjárfestinga í nýjum tækjabúnaði.

Jakob segir að kostnaður á hvern rekstraraðila gæti hlaupið á tugum milljóna. „Samkvæmt okkar útreikningum okkur gæti tíðnibreytingin kostað okkur á bilinu 200 til 300 milljónir."

„Við bíðum nú þess að Póst- og fjarskiptastofnun svari athugasemdum okkar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×