Innlent

Vilja skattafslætti fyrir tölvuleikjaiðnað á Íslandi

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Bretar hafa ákveðið að veita tölvuleikjaiðnaðinum þar í landi umtalsverða skattafslætti. Þrýst hefur verið á að koma svipuðu fyrirkomulagi hér á landi og segir framkvæmdastjóri CCP að slíkt hafi áhrif á hvar fyrirtækið ákveður að stækka við sig í framtíðinni.

Breska ríkisstjórnin kynnti í vikunni ný fjárlög þar sem tölvuleikjaiðnaðinum eru veittir umtalsverðir skattafslættir vegna þróunar og framleiðslu á tölvuleikjum og hreyfimyndum. TIGA, hagmunasamtök tölvuleikjaframleiðenda í Bretlandi höfðu barist fyrir þessarri breytingu í fimm ár.

„Ríkisstjórnin mun veita leikjaframleiðendum skattaafslátt eins og kvikmyndaiðnaðinum. Eins og er ríkir ekki jafnræði þarna á milli og það er betra fyrir fyrirtæki að starfa í Kanada eða Frakklandi en í Bretlandi," segir Lorna Evans, formaður TIGA.

Hún segir að um fimm þúsund störf muni skapast með þessarri breytingu og þannig koma í veg fyrir spekileka til landa sem bjóða upp á þessa afslætti.

„Þetta er gott fyrir efnahags- og atvinnulífið og þetta er líka frábært fyrir skapandi iðnað. Oft er litið fram hjá okkur vegna kvikmyndanna því þær virðast meira heillandi en leikirnir en í raun eru leikirnir jákvæðari fyrir efnahagslífið en kvikmyndir og tónlist samanlagt," segir Lorna.

Framkvæmdastjóri CCP tekur undir þetta en samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir að tölvuleikjaiðnaðurinn fái svipaða afslætti og kvikmyndaiðnaðurinn hér á landi nýtur.

„Við erum með skrifstofu í Bretlandi og við erum með skrifstofu í Atlanta þar sem er svipað kerfi líka og við erum alltaf að bera saman hvar er hentugast að stækka fyrirtækið þannig að þetta kemur inn í þá dýnamík," segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP.

Og hann vonar að íslensk stjórnvöld muni skoða hvað Bretar eru að gera og fylgja þeirra fordæmi.

„Ég vona svo sannarlega að íslenska ríkisstjórnin sé að fylgjast með því tilboðum rignir yfir tölvuleikjafyrirtæki hvar sem við erum," segir Hilmar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×