Innlent

Dreifbýlissparisjóður byrjar bankaútrás

Eftir 133 ára starfsemi á Grenivík hefur Sparisjóður Höfðhverfinga hafið bankaútrás og stofnað útibú á Akureyri, sem er sennilega það heimilislegasta á Íslandi.

Sparisjóður Höfðhverfinga er sá næstelsti á landinu, stofnaður árið 1879, og hafði fram til síðustu áramóta eingöngu starfað í Grenivíkurhreppi, þar sem búa um 350 manns. Þann 6. janúar síðastliðinn urðu þáttaskil í rekstrinum þegar útrás hófst í önnur byggðarlög, með opnun útibús við Glerárgötu á Akureyri.

Sparisjóðsstjórinn, Jenný Jóakimsdóttir, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að sameining Byrs við Íslandsbanka hafi ýtt þeim af stað og það hafi verið vilji til þess að bjóða áfram upp á sparisjóðsþjónustu á Akureyri. Neikvæð ímynd bankaútrásar Íslendinga fældi Grenvíkinga ekki frá því að hefja sína útrás og segir Jenný að viðbrögðin hafi verið góð og viðskiptavinum fjölgi.

Heimilislegt útbúið á Akureyri með gömlum húsmunum vekur athygli. Myndir á veggjum minna á liðna tíð og þarna eru engar glerbrynjaðar gjaldkerastúkur, enda segir Jenný að áherslan sá á góða þjónustu við viðskiptavini en ekki á mikla umgjörð.

Spurð hvort Höfðhverfingar láti staðar numið í útrásinni í höfuðstað Norðurlands eða hvort sótt verði á stærri mið svara Jenný að það sé allt opið og menn verði bara að sjá til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×