Innlent

Óvissu um kvótakerfið verður að ljúka

Framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri segir að óvissan um kvótakerfið gangi ekki lengur. Stjórnmálamenn verði að fara að ljúka málinu. Hann vonast jafnframt til að stóriðjuframkvæmdir í Þingeyjarsýslum skapi fyrirtækinu veruleg verkefni.

Í Slippnum á Akureyri, sem er sá stærsti á landinu með um eitthundrað og fjörutíu manns í vinnu, hafa menn sótt verkefni til útlanda. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 greinir Anton Benjamínsson, framkvæmdastjóri Slippsins, frá því hvernig viðskipti við erlendar útgerðir hafa hjálpað til að halda uppi verkefnastöðunni.

Heimamarkaðurinn sé þó sá mikilvægasti, að sögn Antons. Þar ríkir hins vegar óvissan um kvótakerfið. Hann segir að sama hvar menn standi í pólitík þá þýði ekki að neita því að útgerðir haldi að sér höndum. Hann segir flotann eldast og þörf á viðgerðum safnist upp. Þessi óvissa gangi ekki lengur og það sé engin heimtufrekja að segja að stjórnmálamenn verði að fara að ljúka málinu.

En þeir bíða einnig eftir tækifærum í Þingeyjarsýslum, við jarðgufuvirkjanir og stóriðjuframkvæmdir. Anton segir að reynslan frá Becromal á Akureyri sýni vel mikilvægi stóriðjunnar og þeir ætli sér klárlega að sækja sér bita í Þingeyjarsýslur. Það geti skipt verulegu máli fyrir Slippinn og breikkað starfsemi fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×