Innlent

Jóhanna um olíusamráðsdóminn: Þetta kom okkur á óvart

Forsætisráðherra segir ákvörðun Héraðsdóms um að fella úr gildi sektargreiðslur vegna olíusamráðsins koma sér á óvart. Íslenska ríkið þarf að greiða olíufélögunum einn og hálfan milljarð króna.

Héraðsdómur felldi í vikunni úr gildi ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála um sektargreiðslur vegna olíusamráðsins árin 1993 til 2001. Íslenska ríkinu þarf því að greiða olíufélögunum Olís, Skeljungi og ESSO, einn og hálfan milljarð króna.

Eftir úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í ársbyrjun 2005 greiddu félögin sektina, með fyrirvara um lögmæti hennar. Tekist hefur verið á um málið fyrir dómstólum allar götur síðan.

Ljóst er að um verulega fjárhæð er að ræða fyrir ríkissjóð. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær að áhrif dómsins þó ekki enn verið skoðuð.

„Það hefur ekki verið rætt hér en ég er nokkuð undrandi á þessari niðurstöðu sem að þarna er fengin en þetta gengur til Hæstaréttar, líklega verður þessu áfrýjað, og við skulum sjá hvað setur þangað til þetta er komið þangað," sagði Jóhanna.

Þetta kom ykkur á óvart?

„Já ég verð að segja það með tilliti til þess að það er verið að fella úr gildi úrskurð samkeppnisyfirvalda, já."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×